Gönguleiðir

Útsýnið frá toppi Esjunnar
Útsýnisskífa er á toppinum

Fjöll eru heilsulind!

Aðalgönguleiðin á Þverfellshorn liggur frá bílastæði og upp að útsýnisskífu á Þverfellshorni í um 780 metra hæð yfir sjávarmáli.
Gönguleiðin er vel merkt og heildarlengd Þverfellsleiðar til og frá bílastæði er um átta kílómetrar. Gönguleiðin á Þverfellshorn er bæði fjölbreytt og reynir með víðtækum hætti á líkamann. Fjölmargir fara leiðina nokkrum sinnum í viku sér til heilsubótar og njóta líkamsræktar í náttúrulegu umhverfi. Samspil heilsueflingar og fjallgöngu ætti að vera einstaklingum góð leið til eflingar á líkama og sál.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur látið  útbúa skilti við gönguleiðina.
Er það gert með öryggi göngufólks í huga og til þess að fólk átti sig á hvar það er staðsett á leið sinni á toppinn.

Gönguleiðin á Þverfellshorn:

1 - Skógarstígur

Staðsetning: N64°12.719 W21°42.976

Lagt af stað frá bílastæðinu við Mógilsá og gengið vestan hennar.

Gengið er upp í 65 metra hæð að Skógarstígsafleggjara.

Að sumarlagi má hér sjá lúpínubreiður sem setja sterkan svip á landslagið ásamt birkiskógi og barrskógi þegar ofar dregur.

Þverfellshornið virðist í órafjarlægð.

Lýsing á mynd

2 - Þvergil

Staðsetning: N64°12.904 W21°43.205

Gengið er upp í 140 metra hæð upp úr Þvergili.
Í Þvergili eru manngerðar tröppur bæði úr tré og steini.
Hér má sjá birkiskóg og mela.
Efst í gilinu er oft mikið fannfergi að vetrarlagi.

Lýsingin

3 - Göngubrúin

Staðsetning: N64°13.085 W21°43.034

Gengið er upp í 240 metra hæð vestan við göngubrú á Mógilsá.
Í gilinu var gerð tilraun til kalkvinnslu um aldamótin 1900.
Göngufólk er hvatt til að fara göngustíginn yfir brúna til að hlífa Einarsmýri fyrir átroðningi og gróðurskemmdum.

4 - Vaðið

Staðsetning: N64°13.520 W21°42.326

Gengið er upp í 383 metra hæð við vaðið yfir Mógilsá.

Í metrum er leiðin á Þverfellshorn rúmlega hálfnuð.

Framundan er stórgrýtt hlíð.

Í austri eru Rauðhóll og Geithóll og þar á milli er gönguleiðin yfir Gunnlaugsskarð.

Vaðið

5 - Steinn

Staðsetning: N64°13.822 W21°43.092

Gengið er upp í 587 metra hæð að steini sem merktur er „Steinn“  efst á Langahrygg.

Til vinstri er horft niður í Gljúfradal og upp af honum rís Kerhólakambur.

Til hægri er horft út eftir Rauðhömrum sem enda við Gunnlaugsskarð.

6 - Klettabeltið

Staðsetning: N64°13.900 W21°42.910

Gengið er í 670 metra hæð neðan við klettabeltið.

Brattasti hluti leiðarinnar er framundan.

Eftir er 90 metra hækkun áður en toppnum er náð.

Á bröttustu köflunum hefur verið komið upp keðjum, göngufólki til stuðnings og öryggis. Útsýnisskífa er á toppnum.